Íslendingafélagið fær háa sekt og færri áhorfendur

Leikmenn FC Köbenhavn fagna Hákoni Arnari Haraldssyni eftir að hann …
Leikmenn FC Köbenhavn fagna Hákoni Arnari Haraldssyni eftir að hann skoraði mark liðsins í leiknum við Dortmund. AFP/Bo Amstrup

Danska knattspyrnufélagið FC Köbenhavn þarf að greiða Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, háa sekt og þarf að loka hluta heimavallarins, Parken, í næsta heimaleik í Evrópukeppni.

Ástæðan er sú að stuðningsfólk FCK skaut upp flugeldum á heimaleik liðsins við Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu fyrr í vetur, ásamt því að félagið stóð ekki nægilega vel að því að hindra aðgengi áhorfenda niður að vellinum, sem og fyrir utan leikvanginn.

Samtals nemur sektin 79 þúsund evrum, eða tæpum 12 milljónum íslenskra króna. Auk þess verður áhorfendastúka B, sem gengur undir nafninu Sektion 12, lokuð á næsta heimaleik liðsins í Evrópukeppni.

Ísak Bergmann Jóhannesson, Hákon Arnar Haraldsson og Orri Steinn Óskarsson leika með FC Köbenhavn sem gerði jafntefli, 1:1, við Dortmund í umræddum leik þar sem Hákon skoraði mark liðsins. Það var eina mark FCK í sex leikjum í riðlinum en liðið gerði 0:0 jafntefli í hinum heimaleikjunum, gegn Manchester City og Sevilla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert