Missir af öðru heilu tímabili eftir bakslag

Jón Guðni Fjóluson missir af öðru heilu tímabili.
Jón Guðni Fjóluson missir af öðru heilu tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Jón Guðni Fjóluson verður ekkert með Hammarby á komandi tímabili í sænska boltanum vegna meiðsla.

Jón Guðni sleit krossband haustið 2021 og lék því ekkert með liðinu á síðasta tímabili. Átti hann að snúa til baka fyrir komandi tímabil, en eftir bakslag er ljóst að hann missir af öðru heilu tímabili.

„Þetta er sorglegt. Jón er frábær leiðtogi og einstaklingur. Hann var alltaf til staðar á síðasta ári, þrátt fyrir meiðslin. Þetta er mikið bakslag,“ sagði Marti Cifuentes, þjálfari Hammarby, við Fotbollskanalen í Svíþjóð.

Jón er samningsbundinn Hammarby út tímabilið og verður því enn þá í röðum félagsins, þrátt fyrir meiðslin, en í öðru hlutverki. „Vonandi getur hann stutt við unga leikmenn hjá okkur og ég veit hann hefur áhuga á þjálfun,“ sagði Cifuentes.

mbl.is