Tvenn bronsverðlaun í morgunsárið

Frá keppni Íslendinga í bogfimi í San Marínó.
Frá keppni Íslendinga í bogfimi í San Marínó. Ljósmynd/Smáþjóðaleikarnir

Tvær íslenskar bogfimisveitir kepptu um bronsverðlaun á Smáþjóðaleikunum í San Marínó í morgun og báðar lönduðu þær verðlaunum.

Um er að ræða karlasveit og blandaða sveit Íslands með trissuboga (e. compound). Blandaða sveitin hafði þegar unnið Mónakó í átta sveita úrslitum en tapað fyrir Lúxemborg í undanúrslitum. Mótherjinn í bronsviðureigninni í morgun var San Marínó og þar hafði Ísland betur, 151:148.

Karlasveitin hafði unnið Liechtenstein í átta sveita úrslitum en einnig tapað fyrir Lúxemborg í undanúrslitum. Í bronsviðureigninni í morgun var það svo Kýpur sem tapaði fyrir Íslandi, 330:222. Lúxemborg vann í báðum flokkunum.

Keppni í úrslitum heldur áfram síðar í dag þar sem fjölmargir Íslendingar verða í eldlínunni, jafnt í einstaklingskeppni sem liðakeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert