Lovísa er íþróttamaður Gróttu

Lovísa Thompson tekur á móti viðurkenningu sinni.
Lovísa Thompson tekur á móti viðurkenningu sinni. Ljósmynd/Grótta

Handknattleikskonan Lovísa Thompson var í kvöld valin íþróttamaður Gróttu við hátíðlega athöfn. Við sama tilefni var fimleikakonan Sóley Guðmundsdóttir útnefnd íþróttamaður æskunnar.

Í fréttatilkynningu frá Gróttu segir:

Lovísa Thompson er þrátt fyrir ungan aldur orðin ein öflugasta handboltakona landsins. Lovísa er fædd árið 1999 og hefur leikið fimm keppnistímabil með Gróttuliðinu. Lovísa tryggði sér sæti í A landsliði kvenna árið 2015 eða þegar hún var einungis 16 ára gömul. Í dag leikur hún stórt hlutverk með A landsliðinu og hefur leikið 7 landsleiki og skorað í þeim 10 mörk. Hún á einnig fast sæti í U-20 ára landsliði Íslands og er þar í burðarhlutverki en liðið náði góðum árangri á árinu 2017.

Á keppnistímabilinu 2016-2017 var Lovísa langmarkahæsti leikmaður liðsins með 110 mörk í þeim 20 leikjum sem hún lék með liðinu. Hún var auk þess lykilmaður í varnarleik liðsins. Lovísa er í dag fyrirliði Gróttuliðsins í Olís deild kvenna.

Lovísa er góður félagi og gefur ávallt mikið af sér til liðsfélaga sinna. Hún kemur vel undirbúin í öll þau verkefni sem hún tekur sér fyrir hendur. Lovísa er jákvæð og góð fyrirmynd fyrir yngri flokka félagsins og hefur meðal annars komið að þjálfun yngri flokka undanfarin ár.

Sóley Guðmundsdóttir.
Sóley Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Grótta

Sóley Guðmundsdóttir íþróttamaður æskunnar

Íþróttamaður æskunnar hjá Gróttu varð kjörinn í kvöld og varð fimleikakonan Sóley Guðmundsdóttir fyrir valinu.

Sóley Guðmundsdóttir er 14 ára gömul og hefur æft fimleika hjá Gróttu frá fimm ára aldri.  Hún er góð fyrirmynd annarra barna. Hún mætir vel á æfingar og leggur sig alla fram, er vinnusöm og dugleg en það hefur skilað henni þeim góða árangri sem hún náð.

Árangur 2017:

Þrepamót FSÍ 2017: Sóley sigraði á tvíslá, slá, gólfi og í fjölþraut í 1. þrepi (1. þrep er efsta og erfiðasta þrep Fimleikastigans).

Bikarmót FSÍ 2017: Sóley var í bikarliði Gróttu sem að varð bikarmeistari í 1. þrepi.

Íslandsmót í þrepum 2017: Sóley varð Íslandsmeistari í 1. þrepi.

Íslandsmeistaramót í áhaldafimleikum 2017: Sóley varð í 4. sæti í fjölþraut í unglingaflokki og komst í úrslit á tvíslá, slá og gólfi. Hún varð íslandsmeistari unglinga á slá.

Þátttaka á alþjóðlegum mótum 2017: Sóley varð í 7. sæti í fjölþraut  í unglingaflokki á Reykjavík International Games. Keppti á Mälarcupen í Svíþjóð og varð í 19. sæti í fjölþraut í unglingaflokki af alls 61 keppanda. Þá var hún6 á meðal efstu keppenda á stökki.

Sóley var valin í 11 manna landsliðshóp unglinga í maí fyrir NMJ. Nú í haust var hún valin í 10 manna úrvalshóp unglinga hjá FSÍ. Hópurinn mun æfa saman reglulega í vetur og taka þátt í landsliðsverkefnum á vegum FSÍ.

Sóley byrjaði í vetur að aðstoða við þjálfun þriggja, fjögurra og fimm ára barna hjá fimleikadeildinni og hefur það gengið mjög vel.  Hún er mjög jákvæð og skemmtileg stelpa sem kemur með góðan anda inn í fimleikadeildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert