Eagles og Patriots í Ofurskálarúrslitin

Tom Brady undirbýr sendingu gegn Jacksonville Jaguars í nótt.
Tom Brady undirbýr sendingu gegn Jacksonville Jaguars í nótt. AFP

Það verða Philadelphia Eagles og New England Patriots sem munu mætast í úrslitaleik Ofurskálarinnar, Super Bowl, þetta árið. Liðin unnu bæði undanúrslitaleiki sína í úrslitakeppni NFL-deildarinar í nótt og munu mætast 4. febrúar í leik sem er jafnan stærsti íþróttaviðburður ársins í Bandaríkjunum.

Patriots eru ríkjandi meistarar og munu spila til úrslita í þriðja sinn á síðustu fjórum árum. Þeir unnu Jacksonville Jaguars 24:20 í undanúrslitum í nótt þar sem leikstjórnandinn Tom Brady fór enn á ný á kostum og í lokaleikhlutanum átti hann tvær sendingar sem leiddu til snertimarks.

Eagles fóru aftur á móti illa með Minnesota Vikings í hinum undanúrslitaleiknum 38:7 þar sem leikstjórnandinn Nick Foles átti þrjár sendingar sem leiddi til snertimarks.

Ofurskálarleikurinn fer að þessu sinni fram í Minneapolis 4. febrúar og verður endurtekning af úrslitaleiknum árið 2005. Þá var Brady einnig í broddi fylkingar hjá Patriots sem vann viðureign liðanna 24:21 og tryggði sér þriðja titilinn á fjórum árum.

New England Patriots er að spila til úrslita í 10. sinn sem er met, en Philadephia Eagles er að spila í þriðja sinn til úrslita frá árinu 1981.

Nick Foles, leikmaður Philadelphia Eagles, fagnar snertimarki gegn Minnesota Vikings ...
Nick Foles, leikmaður Philadelphia Eagles, fagnar snertimarki gegn Minnesota Vikings í nótt. AFP
mbl.is