Óvæntur sigurvegari

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir mbl.is

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir varð um helgina Evrópumeistari unglinga 18 ára og yngri í 100 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fram fer í Györ í Ungverjalandi.

Þá tók hún bronsverðlaun í 200 metra hlaupi en Guðbjörg var í skýjunum með árangurinn og viðurkennir að hún hafi ekki átt von á þessum glæsilega árangri þegar Morgunblaðið heyrði í henni í gær.

„Ég kom inn í úrslitahlaupið með áttunda besta tímann. Markmiðið fyrir mótið var einfaldlega að komast í úrslit í 100 metra hlaupinu en fyrirfram þá fannst mér það ekkert sérstaklega líklegt. Þegar að ég komst svo í úrslitin ákvað ég bara að njóta þess að hlaupa og reyna að hafa gaman af þessu. Það tókst og það má í raun segja að það hafi allt gengið upp hjá mér í 100 metra hlaupinu og ef ég á að vera alveg hreinskilin þá átti ég alls ekki von á því að vinna hlaupið.“

Guðbjörg hljóp á tímanum 11,75 sekúndum og var sex millisekúndum á undan þeim Pamera Losange frá Frakklandi og Boglárka Takács frá Ungverjalandi.

„Ég náði frábæru starti sem var óvænt því það hefur ekki alltaf verið mín sterkasta hlið. Ég gafst aldrei upp í hlaupinu sjálfu, þrátt fyrir að þær væru nokkrar á undan mér þarna um miðbik hlaupsins. Ég hef alltaf verið mjög sterk á lokasprettinum og ég ákvað að gefa allt í þetta undir restina því ég vissi að ég ætti góðan möguleika á því að ná inn á verðlaunapall.“

Guðbjörg hefur verið að glíma við meiðsli undanfarna mánuði og sigurinn var því ennþá sætari fyrir vikið en hún átti erfitt með að fela tilfinningar sínar þegar að hún kom í mark.

„Ég var bara að hugsa um sjálfa mig og hlaupið sjálft. Ég sá þær í raun ekkert fyrr en ég var búin að stinga mér yfir línuna. Ég áttaði mig strax á því að ég væri komin á pall en það tók mig aðeins lengri tíma að átta mig á því að ég hefði verið í fyrsta sæti. Það sem gerði sigurinn ennþá sætari var sú staðreynd að ég átti engan veginn von á því að ég myndi taka gullið. Ég er búin að vera að glíma við meiðsli undanfarna fimm mánuði og það má í raun segja að ég sé nýbyrjuð að hlaupa aftur. Ég mætti alveg pressulaus inn í mótið og markmiðið númer eitt tvö og þrjú var að gera mitt besta og það gerði sigurinn ennþá sætari fyrir vikið.“

Sjá allt viðtalið við Guðbjörgu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert