Deildarkeppnin hófst um helgina

Afturelding vann fyrsta leik tímabilsins um helgina en tapaði þeim ...
Afturelding vann fyrsta leik tímabilsins um helgina en tapaði þeim næsta. mbl.is/Hari

Nýtt keppnistímabil í Mizuno-deild kvenna í blaki hófst um helgina þegar Afturelding mætti Völsungi frá Húsavík í tvígang í Mosfellsbæ. Liðin skiptu með sér sigrunum eftir hörkuviðureignir.

Fyrri leikurinn fór fram á laugardag, en um maraþonviðureign var að ræða þar sem Afturelding vann að lokum í oddahrinu. Afturelding vann fyrstu hrinu 25:22, en Húsvíkingar sneru blaðinu við í annarri hrinu og unnu 25:22. Afturelding komst í 2:1 með sigri í þriðju hrinu, 25:21, en Völsungur tryggði sér oddahrinu með því að vinna þá fjórðu 25:22. Það var svo Afturelding sem var með yfirburði í oddahrinunni, vann hana 15:3 og leikinn 3:2.

Liðin mættust að nýju á sunnudag en þá voru það Húsvíkingar sem voru sterkari og unnu 3:1. Afturelding vann fyrstu hrinu 25:23 en eftir það tók Völsungur völdin og vann þrjár hrinur í röð. Fyrst 25:21, svo 25:20 og loks 25:14 sem tryggði 3:1 sigur Húsvíkinga.

Rut Gomez, leikmaður Völsungs, var stigahæsti leikmaður helgarinnar. Hún skoraði 26 stig í fyrri leiknum og 27 stig í síðari leiknum. Hjá Aftureldingu skoraði Velina Apostolova 19 stig í fyrri leiknum og 21 stig í þeim síðari.

mbl.is