Valgarð í 12. sæti eftir fyrri dag undankeppninnar

Valgarð Reinhardsson.
Valgarð Reinhardsson. mbl.is/Golli

Íslensku karlarnir hafa lokið keppni í undankeppni HM í fimleikum í Katar. Undankeppnin heldur áfram á morgun og því liggur ekki fyrir í hvaða sæti Íslendingarnir hafna en ljóst er að þeir eru ekki á leið í úrslit. 

Valgarð Reinhardsson náði bestum árangri Íslendinganna á einstökum áhöldum en hann varð í 12. sæti í stökki á fyrri degi undankeppninnar. Fékk hann 13,316 í einkunn. Valgarð fór alla leið í úrslit í stökki á EM Glasgow í sumar og er stökkið hans langbesta grein. Í fjölþrautinni (þegar árangur á öllum áhöldunum telur) þá fékk Valgarð 69,198 stig. 

Jón Gunnarsson hafnaði í 40. sæti í hringjunum með 12,700 í einkunn. Hann fékk ekki einkunn í fjölþrautinni þar sem hann keppti ekki á öllum áhöldum. 

Eyþór Baldursson varð í 59. sæti á bogahesti sem var hans besti árangur á einstöku áhaldi. Þar fékk Eyþór 10,633 í einkunn. Hann fékk 66,031 í einkunn í fjölþrautinni. 

Síðari dagur undankeppninnar verður á morgun en ekki var hægt að koma öllum keppendum fyrir á einum degi. Þá skýrist endanlega hvar Íslendingarnir hafna en átta efstu komast í úrslit á hverju áhaldi og því ljóst að íslensku keppendurnir eru ekki í þeim hópi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert