„Var minn síðasti leikur fyrir SR“

Robbie Sigurðsson hefur spilað sinn síðasta leik fyrir SR.
Robbie Sigurðsson hefur spilað sinn síðasta leik fyrir SR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Robbie Sigurðsson er klárlega einn besti íshokkíleikmaður sem Ísland hefur átt en hann er að yfirgefa SR og Hertz-deildina í íshokkí. Mun hann flytja á heimaslóðir í Bandaríkjunum og hefja nýjan feril eftir að hafa spilað nokkur tímabil á Íslandi, bæði með SR og Esju.

Robbie þurfti að sjá á eftir enn einum Íslandsmeistaratitlinum til SA í dag en SA vann SR 4:1 á Akureyri og kláraði það með einvígi liðanna um titilinn.

Hvað segir þú Robbie. Hvernig lítur þessu úrslitakeppni við þér?

„Þótt SA hafi unnið alla þrjá leikina í einvíginu þá var þetta miklu jafnara en það lítur út fyrir. SA vann tvo fyrstu leikina 3:2, þann fyrri í framlengingu og í dag var leikurinn frekar jafn. Þeir bara nýttu sína sénsa betur og því fór sem fór. Þannig var það í raun í allri seríunni. Við fengum alltaf okkar færi en því miður hefðum við þurft fleiri mörk. Við hefðum þurft að mæta enn grimmari í þennan þriðja leik. Við vorum of mikið í refsiboxinu og það varð okkur erfitt.“

Þú fórst ekki tómhentur frá svellinu í dag. Þú varst verðlaunaður fyrir að vera stigahæsti leikmaður deildarkeppninnar.

„Það kannski yljar eitthvað smá en í dag var bara markmiðið að vinna leikinn og það tókst ekki. Við vildum vinna stærri verðlaun og komast alla leið í þessari úrslitakeppni, svo einfalt er það. Þetta var því miður minn síðasti leikur fyrir SR. Ég hef ákveðið að taka næsta skref á ferlinum og færa mig yfir til Bandaríkjanna og spila þar. Ég varð alveg heillaður af Íslandi þegar ég kom hingað til að spila og hér hef ég eignast marga góða vini. Árin hafa verið frábær en nú verð ég hins vegar að taka næsta skref til að verða enn betri.“

Þú munt væntanlega halda áfram að spila með íslenska landsliðinu.

„Algjörlega. Ég vil spila með landsliðinu eins lengi og ég kemst í það, helst þar til ég verð fertugur“ sagði Robbie en mikill sjónarsviptir verður af honum fyrir Hertz-deildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert