Hálf milljón á keppanda

Stelpurnar í Gerplu fóru ótroðnar slóðir í átt að sínum …
Stelpurnar í Gerplu fóru ótroðnar slóðir í átt að sínum fyrsta Evrópumeistaratitili árið 2010. mbl.is/Golli

Fimleikafélagið Gerpla braut blað í íslenskri íþróttasögu í október 2010 í Malmö í Svíþjóð þegar kvennalið félagsins var Evrópumeistari í hópfimleikum í fyrsta sinn. Íslenska kvennalandsliðið varð svo Evrópumeistari 2012 í Aarhus í Danmörku, tveimur árum síðar, en Glódís Guðgeirsdóttir var lykilmaður í báðum liðum. Undirbúningurinn fyrir mótið 2010 var allt annað en auðveldur enda þurftu Gerplustúlkur að borga fyrir allt sem snéri að mótinu og undirbúningnum úr eigin vasa.

Glódís setti inn áhugaverða færslu á samfélagsmiðilinn Twitter á sunnudaginn síðasta þar sem hún vakti athygli á málinu en þá voru liðin sjö ár frá því að liðið varð tvöfaldur Evrópumeistari í Danmörku.

„Stuttu eftir hrun, 2010, var ekkert í boði varðandi styrki og annað enda hálfgerð kreppa hérna ennþá,“ sagði Glódís í samtali við Morgunblaðið. „Við þurftum þess vegna að greiða æfingagjöld, keppnisferðina sjálfa og svo æfingaferð sem við fórum í til Ítalíu úr eigin vasa. Eins þá borguðum við undir þjálfarana fyrir Evrópumótið, fyrir keppnisbúningana og æfingagallana sem við hituðum upp í og voru merktir Íslandi. Krónan var mjög veik á þessum tíma og gengið þess vegna slæmt gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Það er erfitt að festa hendi á það hvað þetta var að kosta nákvæmlega, við vorum allar fastagestir hjá sjúkraþjálfara á þessum tíma sem kostaði sitt, en gróflega skotið þá myndi ég segja að þetta hafi verið í kringum hálf milljón á mann sem við enduðum á að borga.“

Helgarnir fóru í stífar æfingar

Glódís viðurkennir að það hafi verið lýjandi að þurfa að hafa áhyggjur af fjármálunum á meðan erfiður undirbúningur fyrir Evrópumótið stóð sem hæst.

„Keppnistímabilið hérna heima klárast í kringum maí/júní og eftir það færist fókusinn yfir á Evrópumótið sem fór fram í október. Við vorum á morgunæfingum tvisvar sinnum í viku, fjórum til fimm æfingum á kvöldin sem stóðu yfir í um þrjá tíma í senn, þannig að við vorum að æfa í kringum sjö sinnum í viku til að byrja með.“

Viðtalið við Glódísi Guðgeirsdóttur má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert