Sjö komin inn á EM - Þrettán ára Íslandsmet féll

Kristinn Þórarinsson sló Íslandsmet í dag.
Kristinn Þórarinsson sló Íslandsmet í dag. mbl.is/Hari

Tvær sundkonur og tveir sundmenn tryggðu sér í dag sæti á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug sem fram fer í Glasgow í næsta mánuði. Áður höfðu Anton Sveinn McKee, Eygló Ósk Gústafsdóttir og Snæfríður Sól Jórunnardóttir náð lágmarki fyrir mótið.

Íslandsmeistaramótið í 25 metra laug hófst í morgun og óhætt er að segja að það hafi hafist með látum. Kristinn Þórarinsson úr ÍBV bætti Íslandsmetið í 100 metra fjórsundi með því að synda á 53,85 sekúndum, en hann sló þar með met Arnar Arnarsonar frá árinu 2006 sem var 54,30 sekúndur. Kristinn synti langt undir EM-lágmarkinu sem er 55,49 sekúndur.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH náði lágmarkinu í 50 metra baksundi með því að synda á 28,05 sekúndum í undanrásum í morgun, eða 1/100 úr sekúndu undir lágmarkinu. Hún hefur stundað sundæfingar á fullu síðustu vikurnar eftir að hafa lagt sundbolinn á hilluna í fyrra.

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Dadó Fenrir Jasminuson úr SH náðu EM-lágmörkum í 50 metra skriðsundi. Jóhanna synti á 25,43 sekúndum eða 10/100 úr sekúndu undir lágmarki, og Dadó á 22,32 sekúndum sem er 15/100 úr sekúndu undir lágmarkinu karlamegin.

Íslandsmeistaramótið heldur áfram í Ásvallalaug yfir helgina en keppt er til úrslita í fyrstu greinunum í dag frá 16.30 til 18.00. Hér má sjá dagskrá og úrslit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert