Forsetinn vill að úrskurðinum sé áfrýjað

Vladimir Putin heldur ræðu á Ólympíusamkomu í Sochi í Rússlandi …
Vladimir Putin heldur ræðu á Ólympíusamkomu í Sochi í Rússlandi fyrr í þessum mánuði. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, telur fullvíst að úrskurði Alþjóðalyfjanefndarinnar, WADA,  verði áfrýjað til Alþjóðaíþróttadómstólsins, CAS, en Rússar voru í gær úrskurðaðir í fjögurra ára bann frá þátttöku í öllum stórum íþróttaviðburðum á heimsvísu.

Rússar hafa þriggja vikna frest til að áfrýja og Pútín sagði við fréttastofuna TASS að full ástæða væri til þess að nýta sér þann rétt.

„Við höfum ríkar ástæður til að áfrýja þessu til CAS. Það er mikilvægt að þetta mál sé grandskoðað af sérfræðingum,“ sagði Pútín og kvaðst ekki sáttur við að Rússland væri sett í bann í heild sinni.

„Aðalmálið í mínum augum er, og ég held að flestir séu því sammála, að allt frá dögum Rómverja hafa refsingar verið miðaðar við einstaklinga og byggðar á því hvað þeir gera af sér. Refsing getur ekki náð yfir heilt samfélag og haft áhrif á þá sem ekkert hafa gert af sér. Ég tel að sérfræðingar WADA átti sig á þessu. Ef einhverjir þeirra eru hlynntir því að refsa heildinni, þá fær það mann til að hugleiða hvort þeir beri ekki hagsmuni íþróttanna á heimsvísu fyrir brjósti, eða hvort þeir láti stjórnast af pólitískum skoðunum sem hafa ekkert að gera með hagsmuni íþróttanna og Ólympíuhreyfingarinnar,“ sagði Pútín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert