Nú kom pökkleikurinn hjá okkur

Jón Benedikt Gíslason þjálfari og leikmenn á bekknum fylgjast með …
Jón Benedikt Gíslason þjálfari og leikmenn á bekknum fylgjast með í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ísland vann 4:1 sigur á Nýja-Sjálandi í kvöld í B-riðli 2. deildar á HM kvenna í íshokkí. Í gær steinlá Ísland gegn Ástralíu 6:1 og má segja að liðið hafi skipt um ham á milli leikja. Þjálfari liðsins, Jón Benedikt Gíslason, var alveg jafn rólegur í gær og í kvöld. Stórtap eða stórsigur, ekkert virðist raska ró hans. Jón var fenginn í stutt spjall eftir leik.

„Þetta var allt annar leikur hjá okkur hér í kvöld og allt önnur frammistaða. Nú kom pökkleikurinn hjá okkur sem við höfum verið að byggja upp síðustu tvö ár. Við getum spilað pökknum og haldið honum. Nú kom það og þegar við gerum það sem lið þá eru mjög fá lið sem geta varist sóknarleiknum okkar.

Það komu fjögur mörk , sem er ekki slæmt. Þið hefðuð samt getað skorað mun meira.

„Við hefðum klárlega getað skorað tíu en pökkurinn fór ekki oftar í netið, oft alveg ótrúlegt að hann hafi ekki farið inn. Samt sem áður þá er Nýja-Sjáland klókt lið  og við þurftum að hafa fyrir þessu allan tímann. Eitt mark frá þeim, eða tvö hefði getað komið þeim inn í leikinn. Við héldum samt pressu á þeim allan tímann og gáfum nánast engin færi á okkur. Heilt yfir var frammistaða leikmanna frábær. Við gátum spilað á öllum okkar leikmönnum og allir skiluðu sínu.“

Birta Júlía var einbeitt í markinu hjá ykkur. Nýja-Sjáland fékk afar fá færi en þau voru góð og þá varði Birta stundum virkilega vel.

„Það var lítið að gera hjá henni og það er oft erfitt að vera kaldur í markinu. Hún varði nokkur skot alveg frábærlega. Þetta voru góð skot. Það þurfti skot upp í vinkilinn til að skora hjá henni. Sem betur fer tók Silvía Rán sig til og kvittaði strax með enn þá betra marki.“

Það var eins og köld vatnsgusa í andlitið þegar Nýja-Sjáland minnkaði muninn í 3:1 þegar tólf mínútur voru eftir. Þið voruð algjörlega með leikinn í höndunum og höfðuð sótt stanslaust allan þriðja leikhlutann. Var þetta ekki óþægilegt?

„Jú það var það. Maður hugsaði að það gæti bara ekki verið að leikurinn færi að snúast eftir að hafa átt allan leikinn frá fyrstu mínútu. Sem betur fer þá eru karakterar í liðinu sem geta stigið upp í svona stöðu, þegar liðið þarf virkilega á marki að halda. Við slökktum neistann hjá þeim strax, skoruðum 4:1 og þá var þetta bara búið.“

Hvernig sérð þú fyrir þér næstu leiki. Það eru níu stig í pottinum en liðin sem eftir eru geta öll bitið frá sér.

„Þetta verða allt erfiðir leikir. Liðin sem eftir eru eru öll góð. Þau eru öðruvísi en Ástralía og Nýja-Sjáland. Þau reiða sig mikið á skyndisóknir og liggja stíft til baka. Þau eru með stjörnuleikmenn sem geta gert usla upp á eigin spýtur. Það má því segja að þetta verði allt saman flóknir leikir. Ef við náum að halda uppi hraða og spila okkar leik þá eigum við að keyra yfir þessi lið. Við erum með meiri breidd og ættum að hagnast á því.“

Svo er ein létt spurning í lokin. Hverjar telur þú líkurnar á að snillingurinn Kolbrún María Garðarsdóttir skori á þessu móti. Hana vantar ekki færin það sem af er.

„Það er klárlega einhvers staðar á bilinu 99-100%,“ sagði glettinn Jón Benedikt að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert