Gríðarlegur liðsstyrkur til Eyja

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er gengin til liðs við ÍBV.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er gengin til liðs við ÍBV. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handknattleikskonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er gengin til liðs við ÍBV en það eru Eyjafréttir.is sem greina frá þessu. Hrafnhildur Hanna kemur til félagsins frá franska úrvalsdeildarliðinu Bourg-de-Péage þar sem hún lék á nýafstaðinni leiktíð við góðan orðstír.

Hrafnhildur Hanna, sem er 25 ára gömul, er uppalin á Selfossi og lék með liðinu frá 2011 áður en hún hélt út í atvinnumennsku. Hún á að baki 22 landsleiki fyrir A-lansdslið Íslands þar sem hún hefur skorað 47 mörk.

Hanna á sterkar tengingar til Eyja en báðir foreldrar hennar eru fæddir í Vestmannaeyjum. Hanna sagði í samtali við Eyjafréttir að hugurinn hefði stefnt heim til Íslands eftir fínt tímabil í Frakklandi og að hún væri mjög spennt fyrir komandi tímabili með ÍBV,“ segir á vef Eyjafrétta.

Hrafnhildur Hanna er önnur landsliðskonan sem gengur til liðs við ÍBV fyrir þetta tímabil en Birna Berg Haraldsóttir skrifaði undir samning við félagið eftir áramót. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert