Tvöfaldur heimsmeistari fannst látinn

Alex Pullin.
Alex Pullin. AFP

Ástralski snjóbrettameistarinn Alex „Chumpy“ Pullin lést í dag, 32 ára að aldri. Pullin, sem er tvöfaldur heimsmeistari á snjóbretti, var við veiðar með spjóti (spearfishing) fyrir utan strönd Ástralíu er hann lést.

Pullin, sem var fánaberi ástralska Ólympíuliðsins á vetrarleikunum í Sochi árið 2014 drukknaði við veiðar á Gullströndinni í Queensland að því er fram kemur í áströlskum fjölmiðlum. Lík hans fannst á sjávarbotni án súrefnisgrímu en hann hafði verið við veiðar og köfun við Palm Beach. 

AFP

„Þetta er mikill sorgardagur fyrir okkur öll,“ segir Ian Chesterman, sem stýrði Ólympíuliði Ástralíu á vetrarleikunum í Vancouver (2010), Sochi (2014) og Pyeongchang (2018) en Pullin keppti fyrir hönd Ástralíu á leikunum.

Hann segir að Pullin hafi ekki bara verið afreksmaður í íþróttum heldur einnig góður félagi sem gerði það að verkum að hann var leiðtogi að eðlisfari. Pullin hafi lagt sig allan fram við að kynna vetraríþróttir í heimalandinu en þær voru líf hans og yndi ásamt því að veiða neðansjávar og kafa.

Pullin varð heimsmeistari í tvígang í brettakrossi (snowboard cross - sjá nánar hér). 

Frétt Nine

Frétt News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert