Sjóræningjarnir bæta í

Antonio Brown er mættur til Flórída.
Antonio Brown er mættur til Flórída. AFP

Útherjinn Antonio Brown er genginn til liðs við Tampa Ba Buccaneers í bandarísku NFL-deildinni í ruðningi en þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í gær.

Brown, sem er 32 ára gamall, hefur verið án félags frá því á síðasta ári en hann lék síðast með New England Patriots árið 2019.

Hann spilaði aðeins einn leik fyrir félagið áður en hann var leystur undan samningi í september 2019 en í júlí í sumar var hann úrskurðaður í átta leikja bann fyrir margskonar brot á reglum deildarinnar.

Brown hefur einnig verið orðaður við Seattle Seahawks að undanförnu en hjá Tampa Bay hittir hann fyrir leikstjórnandann Tom Brady og útherjann Rob Gronkowski.

Brown hefur lengi verið á meðal bestu útherja deildarinnar en hann gerði garðinn frægan með Pittsburgh Steelers á árunum 2010 til 2018.

Tampa Bay hefur byrjað tímabilið vel í NFL-deildinni en liðið er í efsta sæti NFC-suðurriðilsins með fimm sigra og tvö töp í fyrstu sjö leikjum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert