Rúmlega tveggja tíma yfirheyrsla í Bretlandi

„Sums staðar er algjört vesen að ferðast með byssu,“ sagði Sigurður Unnar Hauksson, margfaldur Íslandsmeistari í skotfimi og landsliðsmaður í greininni, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Undanfarin ár hefur Sigurður Unnar keppt mikið á erlendri grundu fyrir Íslands hönd og hefur því þurft að ferðast með haglabyssu sína meðferðis.

Hann lenti í skondnu atviki í Bretlandi í eitt skiptið þar sem hann var á leið til æfinga með þáverandi þjálfara sínum sem var breskur.

„Það er sérstaklega mikið vesen að ferðast til bæði Bandaríkjanna og Bretlands með byssu,“ sagði Sigurður.

„Ég lenti í því í Bretlandi að þurfa sitja í tvo og hálfan tíma í yfirheyrsluklefa því ég var að ferðast með byssu,“ sagði Sigurður Unnar meðal annars.

Viðtalið við Sigurð Unnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is