Lést aðeins 25 ára

Agnes Tirop var á meðal fremstu langhlaupara heims.
Agnes Tirop var á meðal fremstu langhlaupara heims. AFP

Langhlauparinn Agnes Tirop, heimsmetshafi frá Kenía, fannst látin á heimili sínu í Iten þar í landi í morgun. Hún var aðeins 25 ára gömul.

Samkvæmt fregnum frá Keníu fannst Tirop látin með stungusár í kviðnum og leikur því sterkur grunur á að hún hafi verið myrt.

„Frjálsíþróttasamband Keníu er skelfingu lostið yfir fréttum af ótímabæru andláti Agnesar Tirop, bronsverðlaunahafa í 10.000 metra hlaupi í heimsmeistarakeppni. Við erum enn að vinna að því að fá nánari upplýsingar varðandi andlát hennar.

Kenía hefur misst gimstein sem var einn af hraðast vaxandi íþróttarisum heimsins, þökk sé áberandi góðri frammistöðu hennar á hlaupabrautinni,“ sagði í yfirlýsingu frá frjálsíþróttasambandi Keníu.

Tirop hafnaði í fjórða sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar í 5.000 metra hlaupi og vann í tvígang til bronsverðlauna í 10.000 metra hlaupi á heimsmeistaramótum í frjálsíþróttum árin 2017 og 2019.

Þá er hún heimsmetshafi í 10.000 metra götuhlaupi kvenna, en það met setti Tirop í Þýskalandi í síðasta mánuði.

mbl.is