Ein efnilegasta blakkona Evrópu fæddist á Akureyri

Ekaterina Antropova í leik með Savino.
Ekaterina Antropova í leik með Savino. Ljósmynd/Instagram

Rússneska blakkonan Ekaterina Antropova er ekki nafn sem margir utan blakáhugafólks kannast við en hún spilar í einni sterkustu deild Evrópu og er á meðal efnilegustu leikmanna álfunnar.

Antropova er 202 sentimetrar á hæð og þykir gífurlega öflugur alhliða leikmaður sem lætur til sín taka í bæði vörn og sókn.

Hún er aðeins 18 ára gömul og fæddist á Akureyri árið 2003. Faðir hennar, Michael Antropov, bjó hér á landi ásamt Olgu eiginkonu sinni á árunum 2000 til 2003. Bjuggu þau á Sauðárkróki þar sem Michael lék körfubolta með liði Tindastóls á þessum árum.

Antropova leikur með Savino Del Bene Scandicci í ítölsku úrvalsdeildinni, sem er ein sú allra sterkasta í Evrópu, eftir að hafa leikið með Green Warriors Sassuolo í sömu deild á síðasta tímabili.

Lýsendum á Ítalíu þykir Íslandstenging Antropovu athyglisverð þar sem að um hverja helgi minnast þeir á Akureyri og Ísland þegar hún keppir með Savino.

Antropova hefur ekki enn spilað A-landsleik fyrir rússneska kvennalandsliðið í blaki en þrátt fyrir að hafa fæðst á Íslandi er hún ekki með íslenskan ríkisborgararétt.

Erlendir ríkisborgarar fá nefnilega samkvæmt íslenskum lögum ekki sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt þó þeir fæðist hér á landi og því er sá möguleiki að Antropova spili fyrir íslenska A-landsliðið ekki fyrir hendi.

mbl.is