Íþróttahetja á vígvöllinn?

Haile Gebrselassie.
Haile Gebrselassie. AFP

Tvöfaldur ólympíumeistari Haile Gebrselassie gæti verið á leið á vígvöllinn ef marka má ummæli hans í sjónvarpsviðtali í heimalandinu Eþíópíu.

Borgarastríð geysar í Eþíópíu þar uppreisnarsveitir Tigray-héraðs sækja að höfuðborginni Addis Abeba. Neyðarástand ríkir í landinu og margar þjóðir á vesturlöndum hvetja ríkisborgara sína í Eþíópíu til að yfirgefa landið. Talið er að þúsundir manna hafi látist í átökunum til þessa og líklega eru milljónir á flótta. Forsetinn Abiy Ahmed tilkynnti opinberlega að hann ætlaði sjálfur að vígbúast og mæta uppreisnarmönnum.

Haile Gebrselassie hefur nú tekið í sama streng og segist tilbúinn til að vera í fremstu víglínu. Önnur kempa úr frjálsum íþóttum, Feyisa Lilesa, gerði slíkt hið sama.

Talið er að yfirlýsingar þeirra Gebrselassie og Lilesa séu tilraun til að sameina þjóðina og blása henni baráttuanda í brjóst. Óljóst er ennþá hversu mikil alvara er á bak við yfirlýsingarnar.

Gebrselassie var mikil afreksmaður bæði á hlaupabrautinni og á malbiki. Hann varð ólympíumeistari í 10 þúsund metra hlaupi á tveimur leikjum í röð. Í Atlanta árið 1996 og í Sydney árið 2000 en hann varð einnig fjórfaldur heimsmeistari í greininni. Síðar sigraði hann fjórum sinnum í Berlínarmaraþoninu fræga.

Gebrselassie er 48 ára gamall. Eftir að íþróttferlinum lauk hefur hann stundað ýmis viðskipti í heimalandinu. Framleiðir kaffi, átti hótel og er með umboð fyrir Hyundai. Í óeirðum í fyrra var kveikt í hótelum í hans eigu með þeim afleiðingum að fjögur hundruð manns misstu vinnuna. 

Feyisa Lilesa vann til silfurverðlauna í maraþoni á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016. 

mbl.is