Fyrst til að vinna einstaklingsverðlaun á alþjóðlegu stórmóti

Anna María Alfreðsdóttir (t.h.) á verðlaunapalli eftir að hafa unnið …
Anna María Alfreðsdóttir (t.h.) á verðlaunapalli eftir að hafa unnið til bronsverðlauna. Ljósmynd/Bogfimisamband Íslands

Akureyringurinn Anna María Alfreðsdóttir vann til bronsverðlauna á Veronica‘s Cup World Ranking Event í bogfimi í Slóveníu um síðustu helgi.

Í einvíginu um bronsið hafði Anna betur af miklu öryggi, 142:130, gegn Stefaniu Merlin frá Lúxemborg.

Anna María vann einnig til gullverðlauna í liðakeppni kvenna með trissuboga ásamt Freyju Dís Benediktsdóttur og Eowyn Marie Mamalias.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur keppandi vinnur til verðlauna á heimslista móti, þ.e. alþjóðlegu stórmóti, í einstaklingskeppni, en næst því komst Ewa Plosaj árið 2019 þegar hún náði best fjórða sæti. Ísland hefur unnið til liðaverðlauna á slíkum viðburðum áður.

Eini keppandinn sem Anna María tapaði fyrir á Veronica‘s Cup var Toja Ellisson í undanúrslitunum en þess má geta að Ellisson vann Evrópuleikana árið 2019.

Anna María sló auk þess fimm Íslandsmet á mótinu:

  • Íslandsmet í trissuboga kvenna Opnum flokki undankeppni 679 stig
  • Íslandsmet í trissuboga kvenna U21 undankeppni 679 stig
  • Íslandsmet í trissuboga kvenna U21 útsláttarkeppni 142 stig
  • Landsliðsmet í trissuboga kvenna Opnum flokki 1979 stig
  • Landsliðsmet í trissuboga kvenna U21 1979 stig

„Anna er ein af okkar fremstu íþróttakonum í bogfimi í trissubogaflokki og miðað við gengi hennar teljast mjög góðar líkur á því að hún hafi möguleika á því að tryggja sér sæti á Evrópuleikana 2023. Þó verður það töluverður bardagi þar sem aðeins 16 þjóðir fá þátttökurétt fyrir einstakling á Evrópuleikana.

Til samanburðar var lágmarksskor 2019 fyrir Evrópuleika 640 stig og Anna skoraði 679 stig í undankeppni þessa móts. En það tryggir ekki þátttökurétt að vera yfir lágmörkum, það þarf einnig að vinna þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu utandyra í næsta mánuði eða Evrópubikarmótinu í apríl 2023,“ segir í umfjöllun Bogfimisambands Íslands.

Sjö konur og tveir karlar frá Íslandi voru skráðir til keppni á Veronica‘s Cup og stóðu sig frábærlega.

Samkvæmt upplýsingum í frétt á vefsíðu Alþjóðabogfimisambandsins var frammistaða Íslands, tveir verðlaunapeningar sem Anna María átti í báðum tilfellum hlut í, sú þriðja besta á mótinu á eftir Slóveníu og Bretlandi.

Í heild sinni unnu 22 þjóðir til verðlauna á Veronica‘s Cup.

mbl.is