Kepptu við sjóliða af bresku herskipi

Hart tekist á.
Hart tekist á. mbl.is/Óttar

„Þetta var mjög skemmtilegt, en þetta voru fyrstu leikirnir okkar frá því að heimsfaraldurinn byrjaði,“ segir Birnir Orri Pétursson, forseti Rugbyfélags Reykjavíkur, en félagið atti kappi við sjóliða af breska herskipinu HMS Enterprise á gervigrasinu við KR-heimilið í gærkvöldi.

Leikurinn átti að vera mánudaginn 19. september en færa þurfti leikinn vegna jarðarfarar drottningarinnar.

Sjóliðarnir keppa við íslensku víkingana.
Sjóliðarnir keppa við íslensku víkingana. mbl.is/Óttar

Léku liðin tvo leiki, og skiptust þau á að sigra. Birnir Orri segir að Rugbyfélag Reykjavíkur hafi áður keppt við sjóliða af herskipum sem hingað komi, og hefur félagið m.a. keppt við franska, kanadíska og breska sjóliða. „Sendiráð þessara ríkja vita af okkur og láta þá áhafnirnar vita ef áhugi er á því að keppa,“ segir Birnir Orri.

„Þetta var góð reynsla og vináttan í fyrirrúmi. Bæði liðin tefldu fram nýjum leikmönnum sem fengu að kynnast íþróttinni,“ segir Birnir. Þá hafi veðrið einnig spilað inn í, en það rigndi hressilega meðan leikirnir fóru fram. „En það gerir hlutina bara skemmtilegri,“ segir Birnir Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert