Carlsen telur Niemann hafa svindlað

Magnus Carlsen og Hans Niemann í Sinquefield Cup.
Magnus Carlsen og Hans Niemann í Sinquefield Cup. Mynd/Lennart Ootes

Magnus Carlsen, heimsmeistari í skák, sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem hann segist telja að bandaríski skákmaðurinn Hans Niemann hafi svindlað meira og síðar en hann hafi viljað viðurkenna. 

Carlsen birti yfirlýsinguna á Twitter og segist vita að skákheimurinn hafi verið í uppnámi vegna aðgerða hans að undanförnu, að hætta keppni í Sinquefield Cup-skákmótinu eftir að hann tapaði fyrir Niemann og gefa síðan skák gegn Niemann eftir einn leik í Julius Baer-mótinu. „Ég er í uppnámi,“ segir Carlsen og bætir við að svindl ógni skákíþróttinni. Hann segir að hann hafi verið andvígur því að Niemann var á síðustu stundu boðið að keppa á Sinquefield Cup og íhugað að draga sig úr mótinu áður en það hófst en ákveðið að lokum að taka þátt í því.

„Ég tel að Hans Niemann hafi svindlað meira  og mun síðar  en hann hefur viðurkennt opinberlega. Atferli hans við skákborið hefur verið óvenjulegt og meðan á skák okkar á Sinquefield Cup stóð hafði ég á tilfinningunni að hann væri hvorki spenntur né einbeitti sér að skákinni í lykilstöðum en á sama tíma yfirspilaði hann mig með svörtu með hætti sem ég tel að aðeins fáir skákmenn séu færir um. Þessi skák varð til þess að ég breytti afstöðu minni,“ segir Carlsen. 

Hann bætir síðan við að hann vilji ekki tefla við skákmenn sem hafa viðurkennt að hafa haft rangt við „því ég veit ekki hvað þeir kunna að gera í framtíðinni“. 

Niemann hefur viðurkennt að hafa svindlað tvisvar á skákvefnum Chess.com, í fyrra skiptið þegar hann var 12 ára og aftur þegar hann var 16 ára en hann er nú 19 ára gamall.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert