„Rosaleg orka í skrokknum“

Alvar og Róbert fyrir miðju en þeim til hvorra handa …
Alvar og Róbert fyrir miðju en þeim til hvorra handa standa þeir Hinrik Pálsson og Auðunn Jónsson frá Kraftlyftingasambandinu sem eru sínum keppendum til halds og trausts. Ljósmynd/Kraftlyftingasamband Íslands

Sex íslenskir keppendur reyna sig á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Skierniewice í Póllandi sem hófst á föstudaginn og stendur langt fram í desember enda hvort tveggja unglinga- og fullorðinsmót.

Róbert Guðbrandsson keppti í +120 kg flokki drengja og hlaut silfur í flokki sex keppenda í æsispennandi keppni þar sem úrslit réðust í síðustu réttstöðulyftunni. Lyfti Róbert 240 kg í hnébeygju, 160 í bekkpressu og 252,5 kg í réttstöðulyftu, samanlagður árangur upp á 652,5 kg.

Róbert var 2,5 kg fyrir ofan Bretann Lois Parry en Austurríkismaðurinn Phillip Nicolic sigraði með yfirburðum og lyfti 747,5 kg í samanlögðu. Róbert bætti sig um 45 kg í samanlögðu frá heimsmeistaramóti drengja í september.

Stór markmið í framtíðinni

„Ég var mjög sáttur við mótið, ég bætti mig um 45 kg í samanlögðu, svo var stóra markmiðið að ná öðru sætinu en ég vissi að þá þyrfti allt að ganga upp,“ segir Róbert. „Ég fann það strax í upphitun að það var rosaleg orka í skrokknum og stefndi allt í gott mót. Ég tók 240 í hnébeygjunni sem var 15 kg bæting. Svo tók ég 160 kg í bekknum sem var bæting um 7,5 kg,“ heldur hann áfram.

Allt hafi svo verið undir í réttstöðulyftunni eins og fram hefur komið en hún gekk upp og silfrið var Róberts. „Ég er með stór markmið í framtíðinni og frábært að fá að keppa fyrir Íslands hönd. Maður lærir svo mikið á því að keppa á móti þeim bestu í heimi. Ég er rosalega sáttur við árangurinn á þessu móti og er allt á réttri leið fyrir framhaldið,“ segir Róbert um frábæran árangur sinn.

Rústar þessu næst

Alvar Helgason keppti í -93 kg flokki unglinga í gær og hafnaði í 19. sæti af 22 keppendum. Lyfti Alvar 230 kg í hnébeygju, 150 kg í bekkpressu og 265 kg í réttstöðulyftu, samtals 645 kg sem er bæting um fimm kg frá NM í september. Hnébeygjan var bæting um 7,5 kg, í bekk bætti hann sig um 2,5 en var fimm kg frá sínu besta í réttstöðu. Alvar reyndi við 240 kg í hnébeygju og 277,5 kg í réttstöðu en þar vildi stöngin ekki upp.

„Alveg síðan maður byrjaði í kraftlyftingum hefur það verið draumur að fá að keppa á stórmótum,“ segir Alvar. „Ég stefndi á stórar bætingar á þessu móti en það fór ekki alveg svoleiðis. Fimm kg bæting í samanlögðu. Ég er glaður með hnébeygjuna en bekkurinn og réttstöðulyftan voru ekki alveg að vinna með mér. Þetta er góð reynsla að keppa á þessum stórmótum. Maður kemur til baka enn sterkari og rústar þessu næst,“ segir hann vígreifur.

mbl.is