Strákarnir skoruðu sjö gegn Mexíkó

Harður atgangur við markið í leik Íslands og Mexíkó í …
Harður atgangur við markið í leik Íslands og Mexíkó í kvöld. Ljósmynd/Hafsteinn Snær

Strákarnir í 20 ára landsliðinu í íshokkí luku keppni með sæmd í B-riðli 2. deildar á heimsmeistaramótinu í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld með því að sigra Mexíkó sannfærandi í lokaumferðinni, 7:0.

Þeir enduðu í fjórða sæti af sex liðum eftir að hafa tapað þremur fyrstu leikjunum en unnið tvo þá síðustu. Kínverjar sigruðu með 14 stig, Belgía fékk 13, Serbía 9, Ísland 6, Taívan 3 og Mexíkó tapaði öllum sínum leikjum.

Arnar Helgi Kristjánsson, Alex Sveinsson og Gunnlaugur Þorsteinsson skoruðu fyrir Ísland í fyrsta leikhluta og staðan var 3:0 að honum loknum.

Gunnlaugur, Daniel Otuoma og Alex skoruðu í öðrum leikhluta og staðan var þá orðin 6:0.

Hákon Magnússon skoraði sjöunda markið snemma í síðasta leikhlutanum og þar við sat.

Alex Sveinsson skoraði tvö mörk gegn Mexíkó í kvöld.
Alex Sveinsson skoraði tvö mörk gegn Mexíkó í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson
mbl.is