Gamla ljósmyndin: Heimsmeistari á Spáni

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Fyrir þau sem fylgdust með íþróttaumfjöllun á níunda og tíunda áratugnum var nafn Brodda Kristjánssonar nánast samofið badminton íþróttinni hérlendis. 

Íslandsmeistaratitlar hans eru á fimmta tug talsins ef sigrarnir eru lagðar saman úr einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik. Sigrar hans á Íslandsmótinu spanna einnig langan tíma en Broddi varð til að mynda Íslandsmeistari í einliðaleik í fjórtánda skipti árið 2002 og var þá 41 árs gamall.

Meðfylgjandi mynd tók silfurrefurinn Árni Sæberg af Brodda á norðurlandamóti í Laugardalshöllinni árið 1986 og birtist myndin í Morgunblaðinu hinn 15. nóvember 1986. Árni mundar enn myndavélina fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Badminton var keppnisgrein á Ólympíuleikum í fyrsta skipti í Barcelona árið 1992. Var Broddi þá á meðal keppenda bæði í einliðaleik en einnig í tvíliðaleik ásamt Árna Þór Hallgrímssyni. 

Féll hann úr keppni í einliðaleik fyrir Teeranun Chiangta frá Tælandi 15:2 og 15:12. Töpuðu Broddi og Árni Þór fyrir Chan Siu Kwong og Ng Pak Kum frá Hong Kong 15:12, 6:15 og 12:15. 

Ferill Brodda í íþróttinni er langur en fyrir utan að hafa verið landsliðsþjálfari um tíma hélt velgengni hans áfram í eldri flokkum. Hápunktinum í þeim efnum náði Broddi þegar hann varð heimsmeistari í einliðaleik í flokki 45 - 49 ára á Spáni árið 2009. 

Broddi var valinn Íþróttamaður Reykjavíkur árið 1993 og 1998. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert