Gamla ljósmyndin: Nítján ár á milli titla

Morgunblaðið/Bjarni Eiríksson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Elsa Nielsen var í fréttunum á dögunum þegar hún varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik í badminton ásamt Drífu Harðardóttur. Elsa verður 47 ára eftir viku og eru þrír áratugir frá því hún varð fyrst Íslandsmeistari. Þá í einliðaleik og varð Elsa Íslandsmeistari fimm ár í röð 1991-1995. Hún varð alls átta sinnum Íslandsmeistari í einliðaleik, síðast árið 1998. 

Elsa hafði ekki keppt af alvöru í áraraðir en nítján ár liðu á milli Íslandsmeistaratitla því hún hafði síðast orðið Íslandsmeistari árið 2002 með bróður sínum, Tryggva Nielsen, í tvenndarleik. 

Meðfylgjandi mynd var tekin í úrslitaleik einliðaleiksins á Íslandsmótinu árið 1991 þegar Elsa varð meistari í fyrsta skipti. Myndina tók Bjarni Eiríksson sem myndaði lengi fyrir Morgunblaðið og birtist myndin fyrst í blaðinu hinn 5. febrúar árið 1991. 

Elsa skrifaði nýjan kafla í íþróttasöguna hérlendis þegar hún varð fyrst íslenskra kvenna til að keppa í badminton á Ólympíuleikum. Elsa keppti þá í einliðaleik í Barcelona árið 1992 og vann hún hún sig einnig inn á Ólympíuleikana í Atlanta árið 1996 og keppti þar einnig í einliðaleik. 

Elsa hefur alls orðið Íslandsmeistari nítján sinnum í meistaraflokki. Hún sagðist í samtali við Morgunblaðið á dögunum stefna að þátttöku í einliðaleik í flokki 45 ára og eldri á HM á Spáni í desember. 

mbl.is