Gamla ljósmyndin: Fimmföld Ragna

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Dagskrárliðurinn Gamla ljósmyndin flakkar fram og aftur í tíma eins og ekkert sé. Í þetta skiptið er myndin nokkuð nálægt okkur í tíma eða rúmlega átta ára gömul 

Birtist hún á forsíðu Morgunblaðsins hinn 31. júlí árið 2012 en myndina tók Kjartan Þorbjörnsson, Golli sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áraraðir. 

Golli myndaði Ólympíuleikana í London sumarið 2012 fyrir Morgunblaðið og mbl.is og lék sér með tæknina þegar Ragna Ingólfsdóttir keppti fyrri leik sinn í badmintonkeppni leikanna. Ragna lagði þar Akvile Stapusaityte frá Litháen að velli, 2:0, í Wembley-höllinni í London. Sigurinn var sögulegur en Ragna varð þar með fyrsti Íslendingurinn til að vinna leik í einliðaleik í badminton á Ólympíuleikum. Áður höfðu þeir Broddi Kristjánsson og Árni Þór Hallgrímsson unnið leik í tvíliðaleik á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992. 

Birtist myndin á forsíðu blaðsins morguninn eftir viðureignina eins og áður segir. Vakti myndbirtingin töluverða athygli enda óvenjuleg. 

Ragna Ingólfsdóttir tilkynnti að loknum síðari leik sínum á leikunum að hún hefði ákveðið að leggja spaðann á hilluna. Ragna keppti tvívegis á Ólympíuleikunum en hún var einnig með í Peking árið 2008. 

Ragna var valin Íþróttamaður Reykjavíkur árið 2007 og hafnaði í 3. sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna sama ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert