Gamla ljósmyndin: Norðurlandamet í Texas

Úr safni Morgunblaðsins

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Nágrannaþjóðir okkar Finnar, Svíar, Norðmenn og Danir eiga glæsilega sögu í frjálsum íþróttum. Að loknu háskólamóti í Austin í Texas í Bandaríkjunum hinn 12. maí árið 1984 var Norðurlandametið í vinsælli grein, 400 metra hlaupi í karlaflokki, ekki í eigu íþróttamanns frá Finnlandi, Svíþjóð, Noregi eða Danmörku. Heldur var það í eigu KR-ingsins Odds Sigurðssonar. 

Oddur hljóp á 45,36 sekúndum og þessi frábæri tími er enn Íslandsmet fjörutíu árum síðar. Oddur hrifsaði metið af finnskri kempu, Markku Kukkoaho, sem setti metið í úrslitahlaupinu á Ólympíuleikunum í München árið 1972. 

Oddur var þá við nám í Austin í Texas og keppti á háskólamótunum NCAA þar sem margir bestu frjálsíþróttamenn heimsins stungu við stafni. 

Síðar sama ár fóru Ólympíuleikarnir fram í Los Angeles og komst Oddur í mill­iriðil í 400 metra hlaupinu, hljóp á 46,07 sek. og varð í 21. sæti af 80 kepp­end­um. Oddur er tvöfaldur ólympíufari því hann vann sig inn á Ólympíuleikana í Moskvu árið 1980, aðeins 21 árs, og var þá einni sekúndu frá því að komast í milliriðla á 47,39 sekúndum. 

Meðfylgjandi mynd er úr safni Morgunblaðsins og sýnir Odd í skjótast upp úr startblokkunum í móti hér heima í KR-búningnum en þess má til gamans geta að í gær fagnaði Knattspyrnufélag Reykjavíkur 125 ára afmæli. 

Oddur virtist hafa meðfædda burði til að hlaupa hratt. Hann var einungis tvítugur þegar hann mældist vel undir undir 11 sekúndum í 100 metra hlaupi og undir 50 sekúndum í 400 metra hlaupi. 

Oddur Sigurðsson var þrívegis á meðal fimm efstu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins á þessum árum. Hann hafnaði í 2. sæti árið 1979, í 5. sæti árið 1982 og í 4. sæti árið 1984. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert