Gamla ljósmyndin: Íslandsmeistari fyrir 40 árum

Morgunblaðið/Ágúst Ásgeirsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Sighvatur Dýri Guðmundsson var einn þeirra íslenska sem tók götuhlaup föstum tökum á níunda áratugnum. Í dag eru götuhlaup algeng, bæði sem heilsubót en einnig hjá Íslendingum sem vilja hlaupa maraþonhlaup. Þannig hefur það ekki alltaf verið.

Meðfylgjandi mynd er tekin þegar Sighvatur kemur fyrstu í mark í maraþonhlaupi í Hafnarfirði fyrir fjörtíu árum síðan eða árið 1982.  Varð Sighvatur þá Íslandsmeistari í maraþoni í fyrsta skipti en hann varð margfaldur Íslandsmeistari í maraþoni. Síðar varð sú breyting að sá Íslendingur sem kemur fyrstur í mark í Reykjavíkurmaraþoni verður Íslandsmeistari. 

Myndina tók Ágúst Ásgeirsson sem sjálfur er ólympíufari og skrifaði í áratugi fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Sighvatur Dýri er frá Dýrafirði en fluttist til Reykjavíkur árið 1981 eða ári áður en hann varð Íslandsmeistari í maraþoni 1982 undir merkjum HVÍ (Héraðssambands Vestur Ísafjarðarsýslu). 

Bestum tíma í maraþoni náði Sighvatur í Hafnarfirði árið 1983 þegar hann hljóp á 2:32,27 klst. Í 10 kílómetra götuhlaupi náði hann sínum besta tíma í Ármannshlaupinu árið 1995 þegar hann hljóp á 36,47 mínútum. 

Sighvatur Dýri keppti einnig á braut og hljóp 1.500 metra hlaup á 4:13,07 í Stokkhólmi árið 1982. 3.000 metra hlaup á 8:58,6 mín í Bad Oldersloh árið 1989. 5.000 metra á 15:43,2 mín í Hamborg árið 1989 og 10.000 metra á 33,10 mín í Reykjavík árið 1987. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert