Haraldur og Ólafur komust áfram

Haraldur Franklín Magnús.
Haraldur Franklín Magnús. Ljósmynd/GSÍ

Haraldur Franklín Magnús og Ólafur Björn Loftsson komust báðir í gegnum niðurskurðinn á Jyske Bank-mótinu í golfi sem er hluti af Nordic Golf-mótaröðinni en Andri Þór Björnsson er úr leik.

Haraldur lék annan hringinn í dag á pari og er í 10. sæti á samtals sex höggum undir pari vallarins en hann var í 2.-3. sæti eftir fyrsta hringinn í gær.

Ólafur lék í dag á þremur höggum yfir pari og er samtals á þremur höggum undir pari og er jafn í 26. sæti en Ólafur lék eins og Haraldur Franklín á sex höggum undir pari á fyrsta hringnum.

Góð spilamennska Andra Þórs í dag dugði honum ekki til að komast áfram. Andri lék hringinn í dag á þremur höggum undir pari og hann lék hringina tvo á samtals fjórum höggum yfir pari sem skilaði honum í 81. sæti.

mbl.is