Tiger í Ryder-liði Bandaríkjanna

Tiger Woods er í Ryder-liði Bandaríkjanna.
Tiger Woods er í Ryder-liði Bandaríkjanna. AFP

Jim Furyk, fyrirliði bandaríska Ryder-liðsins, valdi í kvöld þrjá af þeim fjórum síðustu sem fá sæti í liðinu í Ryder-bikarnum sem fram fer í lok september. Tiger Woods, Phil Mickelson og einn heitasti kylfingur heims í dag, Bryson DeChambeau, urðu fyrir valinu. 

Tiger Woods er í liðinu í fyrsta skipti síðan 2012 og Mickelson í liðinu í tólfta skipti, sem er met. Hann lék fyrst í Ryder-bikarnum árið 1995. DeChambeau hefur verið afar góður á tímabilinu og unnið tvö síðustu mótin á PGA-mótaröðinni. 

Furyk velur síðasta kylfinginn í lið sitt næstkomandi mánudag, en átta stigahæstu kylfingar risamótanna fjögurra á árinu höfðu áður tryggt sér sæti í liði Bandaríkjanna. Brooks Koepka, Patrick Reed, Dustin Johnson, Justin Thomas, Bubba Watson, Jordan Spieth, Rickie Fowler og Webb Simpsons skipa liðið ásamt Furyk, Woods, Michelson og DeChambeau.

mbl.is