25 efstu komast á mótaröðina

Birgir Leifur Hafþórsson
Birgir Leifur Hafþórsson mbl.is/Árni Sæberg

Birgir Leifur Hafþórsson, úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, þarf að vera á meðal tuttugu og fimm efstu kylfinganna á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina í golfi.

Mótið hefst í Tarragona í Katalóníu á laugardaginn og venju samkvæmt er leikið á tveimur völlum á lokastiginu.

Um er að ræða þriðja og síðasta stig úrtökumótanna en um þúsund kylfingar reyna fyrir sér á úrtökumótunum. Tæplega 160 eiga keppnisrétt á lokamótinu. Birgir fór í gegnum annað stigið á dögunum í Madrid og lék þá 72 holur á samtals á þrettán höggum undir pari.

Skor Birgis gefur væntingar um að hann geti blandað sér í baráttuna í Tarragona. Þó ber að hafa í huga að lokamótið er andleg þolraun þar sem kylfingarnir spila sex hringi, sex daga í röð, eða 108 holur.

Allir kylfingarnir leika 72 holur á tveimur völlum eða tvo hringi á hvorum velli. Þegar því er lokið er keppendafjöldi skorinn niður og um það bil helmingur leikur tvo hringi til viðbótar. Þeir sem eru á meðal tuttugu og fimm efstu og jafnir kylfingnum í 25. sæti fá keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag