Guðrún komst á lokahringinn

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi úr GK, komst í gegnum niðurskurðinn þegar hún lauk í dag fjórða hringnum af fimm á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina sem nú stendur yfir í Marokkó.

Guðrún er í 45.-50. sæti af 115 keppendum sem slást um 25 sæti á Evrópumótaröðinni 2019 en 68 keppendur halda áfram eftir daginn í dag.

Hún lék á 73 höggum í dag, einu höggi yfir pari vallarins, og er því samtals á tveimur höggum yfir pari. Spilamennska Guðrúnar hefur verið mjög jöfn á þessum fjórum dögum en hún hefur leikið á 73, 72, 72 og 73 höggum.

Til að komast í hóp 25 efstu þarf Guðrún að ná afar góðum hring á morgun en þær sem nú sitja í sætum 23-25 eru á þremur höggum undir pari, eða fimm höggum á undan Guðrúnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert