Axel og Aron úr leik í Svíþjóð

Axel Bóasson er úr leik eftir tap fyrir sænskum kylfing.
Axel Bóasson er úr leik eftir tap fyrir sænskum kylfing. mbl.is/Kristinn Magnússon

Axel Bóasson og Aron Bergsson féllu í dag úr leik á SM Match-mótinu á Nordic Golf-mótaröðinni. Leikin er holukeppni á mótinu og féllu þeir úr leik í 32-manna úrslitum. 

Axel, sem vann Anton Moström í gær, þurfti að sætta sig við 3/2-tap gegn Adam Eineving frá Svíþjóð. Axel var yfir stærstan hluta leiksins, en Eineving tók fram úr Axel á lokasprettinum. 

Aron mátti þola tap fyrir Svíanum Christopher Sahlström, 5/4. Sahlström er efsti kylfingur stigalistans á mótaröðinni og þegar kominn með þátttökurétt á Áskorendamótaröð Evrópu, þar sem hann hefur unnið fjögur mót á tímabilinu. 

Haraldur Franklín Magnús var einnig á meðal kylfinga á mótinu, en hann féll úr leik gegn William Nygård frá Svíþjóð í gær. 

mbl.is