Veiran setur strik í reikninginn hjá Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Kórónuveiran er byrjuð að hafa áhrif á golf eins og flestar aðrar íþróttir og hafa stærstu mótaraðir heims frestað mótum sínum vegna útbreiðslu veirunnar. 

Fyrr í dag var tilkynnt að Players-meist­ara­mót­inu yrði frestað en til stóð að mótið færi fram án áhorfenda, það var hins vegar snögglega hætt við það. 

Þá hef­ur næstu fjór­um mót­um í PGA-mótaröðinni verið af­lýst vegna veirunn­ar: Val­sp­ar-meist­ara­mót­inu á Flórída, WGC-Dell Technologies Match Play í Texas, Corales Puntacana Resort and Club-meist­ara­mót­inu í Dóm­in­íska lýðveld­inu og Val­ero Texas Open í Texas.

Í dag bættust við frestanir í LPGA-mótaröðinni. Næstu þremur mótum í mótaröðinni verður frestað, þar á meðal einu af fimm risamótum hvers tímabils. Mótin eru: Volvik Founders Cup, Kia Classic og ANA Inspiration-risamótið. Stefnt er að því að leika á mótunum síðar á árinu. 

Þá hefur tveimur mótum á Symetra-mótaröðinni verið frestað en Ólafía Þórunn Kristinsdóttir leikur á mótaröðinni og tók þátt á sínu fyrsta móti um síðustu helgi. Mun hún því ekki leika á IOA-mótinu og Casino Resort & Spa mótinu, en þau áttu að fara fram í Kalíforníu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert