Ólafía fór örugglega í úrslit

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir leikur til úrslita á Akureyri.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir leikur til úrslita á Akureyri. Ljósmynd/seth@golf.is

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, leikur til úrslita á Íslandsmótinu í holukeppni í golfi sem fram fer á Jaðarvelli á Akureyri en hún vann 5:3-sigur gegn Guðrúnu Brá, GK, í undanúrslitum í dag.

Ólafía Þórunn mætir Evu Karen Björnsdóttur, GR, í úrslitum en hún lagði Ragnhildi Kristinsdóttur að velli í undanúrslitum í morgun, 4:2. Ólafía Þórunn hefur tvívegis fagnað sigri á Íslandsmótinu í holukeppni, síðast árið 2013, en hún fagnaði einnig sigri á mótinu árið 2011. 

Í karlaflokki mætast þeir Hákon Örn Magnússon, GR, annarsvegar og Axel Bóasson GK. Hákon Örn lagði Íslandsmeistarann Guðmund Ágúst Kristjánsson að velli í undanúrslitum þar sem úrslitin réðust á átjándu holu. Axel lagði Ólaf Björn Loftsson, GKG, að velli 2:1 í hinu undanúrslitaeinvíginu en Axel varð síðast Íslandsmeistari í holukeppni árið 2015.

Úrslitin í bæði karla- og kvennaflokki hefjast núna eftir hádegi.

Axel Bóasson mætir Hákoni Erni Magnússyni í úrslitum karlamegin.
Axel Bóasson mætir Hákoni Erni Magnússyni í úrslitum karlamegin. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is