Engin ákvörðun tekin um Íslandsmótið

Valdís Þóra Jónsdóttir, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir …
Valdís Þóra Jónsdóttir, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir á Hlíðarvelli í maí. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til hefur staðið að Íslandsmótið í golfi fari fram á Hlíðarvelli í Mosfellsbæ dagana 6. - 10. ágúst eða fimmtudag til sunnudags í næstu viku. 

Mbl.is forvitnaðist um hvort breytingar yrðu á mótshaldinu hjá Brynjari Geirssyni, framkvæmdastjóra GSÍ, í dag. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort Íslandsmótið fari fram í næstu viku og/eða hvort breytingar verði á umgjörðinni. 

Mótsstjórn Íslandsmótsins fundaði í dag sem og nefnd sem sett var saman hjá GSÍ vegna kórónuveirunnar fundaði einnig. Mótsstjórn Íslandsmótsins mun funda aftur í fyrramálið. 

Brynjar tjáði mbl.is að ekki yrði tekin ákvörðun varðandi Íslandsmótið fyrr en á morgun í fyrsta lagi. Sambandið og mótsstjörnin eiga eftir að fá frekari upplýsingar frá yfirvöldum og sóttvarnarlækni til að taka ákvörðun. 

Varðandi golfiðkun hérlendis almennt sagði Brynjar að hún muni nú taka mið af Covid-reglum á ný sem notaðar voru í vor. Nánari upplýsingar um það munu koma fram síðar í dag en GSÍ mun senda upplýsingar um það til golfklúbbanna í dag. 

Eins og marg oft hefur komið fram á þessu ári þá er hægt að keppa í golfi án þess að brjóta tveggja metra regluna.  En fari Íslandsmótið fram þá stæði GSÍ væntanlega frammi fyrir því að meina áhorfendum að fylgjast með, banna kylfubera og breyta ýmsu í hefðbundinni umgjörð Íslandsmótsins. 

mbl.is