Johnson tveimur milljörðum ríkari

Dustin Johnson fagnar sigri á East Lake vellinum í kvöld.
Dustin Johnson fagnar sigri á East Lake vellinum í kvöld. AFP

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson sigraði á Tour Championship mótinu í golfi í Atlanta í kvöld og varð einnig stigameistari á PGA-mótaröðinni. 

Mótið var lokamót FedEx úrslitakeppninnar og sigurinn í henni tryggir Johnson 15 milljónir dollara í verðlaunafé eða rúma 2 milljarða íslenskra króna. Fyrir vikið verður Johnson væntanlega ofarlega á listanum yfir þá íþróttamenn sem mest þéna á árinu 2020. 

Johnson var efstur fyrir lokamótið og fékk forgjöf í samræmi við það en það fyrirkomulag er notað á lokamótinu. Johnson vann tvö mót af þremur í úrslitakeppninni og tapaði því þriðja eftir bráðabana gegn Jon Rahm. Hann var því geysilega stöðugur í leik sínum. Þegar uppi var staðið vann hann lokamótið með þriggja högga forskot á Justin Thomas og Xander Shauffele en þeir urðu efstir á stigalistanum 2017 og 2018. 

Jon Rahm var fjórum höggum á eftir Johnson. 

Á venjulegu keppnistímabili væri lítið eftir af keppnistímabilinu hjá bestu kylfingum heims. Árið 2020 er frábrugðið vegna heimsfaraldursins og kylfingarnr eiga eftir Opna bandaríska meistaramótið sem hefst á fimmtudaginn og í nóvember verður Masters á Augusta National. 

Dustin Johnson með bikarinn í kvöld.
Dustin Johnson með bikarinn í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert