Þarf að spýta aðeins í lófana

Haraldur Franklín Magnús.
Haraldur Franklín Magnús. mbl.is/Kristinn Magnússon

Draumur Haraldar Franklíns Magnúss um að komast á Evrópumótaröðina í golfi á næsta ári er enn fyrir hendi en hann þarf að spýta aðeins í lófana á næstunni. 

Tuttugu efstu kylfingarnir á Áskorendamótaröð Evrópu fá keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári, þeirri sterkustu í Evrópu. 

45 efstu kylfingarnir fá að leika í lokamótinu á Mallorka en þar verða mörg stig í boði fyrir stigalistann. 

Haraldur er nú í 50. sæti þegar tvö mót eru eftir á Spáni. Hann þarf því að mjaka sér aðeins ofar til að ná inn á lokamótið. Ef hann yrði í stuði á lokamótinu og næði að vera þar í toppbaráttu þá er sá möguleiki fyrir hendi að ná einu af tuttugu efstu sætunum. 

Guðmundur Ágúst Kristjánsson er í 85. sæti á áskorendamótaröðinni og möguleikar hans eru orðnir litlir. 

Næsta mót hefst 14. október. 

mbl.is