Segist vera bestur en hafi ekki sýnt það

Rory McIlroy tapaði sínum leikjum fyrstu tvo dagana í Ryder-bikarnum …
Rory McIlroy tapaði sínum leikjum fyrstu tvo dagana í Ryder-bikarnum í september en vann leik sinn í tvímenningi á sunnudeginum. AFP

Norður-Írinn Rory McIlroy er um þessar mundir í fjórtánda sæti heimslistans í golfi en segist ennþá vera besti kylfingur heims þegar hann er í stuði. 

McIlroy viðurkennir að hafa ekki sýnt að hann sé sá besti í eitt og hálft ár enda hefur hann á þeim tíma verið óstöðugur á golfvellinum. 

„Ég er þeirrar skoðunar að þegar ég næ að leika mitt besta golf að þá sé ég besti kylfingur heims. Ég hef hins vegar ekki sýnt það í nokkurn tíma. Mér finnst samt sem áður að ég þurfi ekki að fara mjög langt aftur til að rifja upp þann tíma þegar ég var efstur á heimslistanum. Ég var efstur á heimslistanum þegar heimsfaraldurinn skall á. Augljóslega hefur frammistaðan ekki verið eins og ég hefði óskað síðustu átján mánuði en ef maður skoðar hlutina í þessu samhengi þá er ég ekki langt á eftir. Nú eru fjölmargir kylfingar að leika virkilega vel,“ sagði McIlroy á blaðamannafundi í Las Vegas þar sem CJ Cup mótið hefst á morgun á PGA-mótaröðinni. 

Eins og McIlroy bendir á var hann í efsta sæti heimslistans í mars árið 2020. Síðan þá hefur eitt og annað gerst. Hann og unnustan eignuðust sitt fyrsta barn og McIlroy fór í breytingar á sveiflunni í þeirri von að auka kylfuhraðann. 

mbl.is