Aron tíundi í Danmörku

Aron Snær Júlíusson.
Aron Snær Júlíusson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Kylfingurinn Aron Snær Júlíusson er í tíunda sæti eftir tvo hringi á UNiCEF-meistaramótinu í golfi sem nú stendur yfir í Lübker Sand í Danmörku.

Aron lék á 71 höggi á öðrum hring í dag, einum undir pari vallarins, og er samtals á þremur höggum undir pari eftir tvo hringi og deilir tíunda sætinu með tveimur öðrum keppendum en mótið er liður í Nordic Golf-mótaröðinni.

Aron er sex höggum á efstu mönnum en Viktor Edin og Jeppe Kristian Andersen eru á níu höggum undir pari og eru með þriggja högga forskot á næsta mann.

Aron Bergsson, Gísli Sveinbergsson og Hákon Harðarson eru einnig á meðal keppenda á mótinu en þeir komust ekki í gegnum niðurskurðinn í dag og hafa því lokið keppni.

mbl.is