Sá norski í 5. sæti heimslistans

Viktor Hovland ásamt gestgjafanum Jack Nicklaus eftir sigurinn á Memorial-mótinu …
Viktor Hovland ásamt gestgjafanum Jack Nicklaus eftir sigurinn á Memorial-mótinu á sunnudag. AFP/Dylan Buell

Norski kylfingurinn Viktor Hovland fór um helgina upp í 5. sæti heimslistans í golfi en fáir Norðurlandabúar hafa verið jafn ofarlega á heimslista karla.

Hovland sigraði á Memorial-mótinu á PGA-mótaröðinni á sunnudagskvöldið en mótið fór fram í Ohio og er Jack Nicklaus, sigursælasti kylfingur sögunnar, gestgjafi á mótinu.

Hovland var í 7. sæti heimslistans fyrir mótið og fór því upp um tvö sæti. Svíinn Henrik Stenson hefur komist hæst Norðurlandabúa á heimslistanum frá því hann var fyrst settur saman á níunda áratugnum en Stenson náði um tíma 2. sæti. Hjá konunum var Íslandsvinurinn Annika Sörenstam frá Svíþjóð samtals í 60 vikur í efsta sæti heimslistans. 

Bandaríkjamaðurinn Scottie Scheffler er áfram í efsta sæti listans en hann hafnaði í 3. sæti á Memorial og hefur verið geysilega stöðugur í rúmt ár. Spánverjinn Jon Rahm, sem sigraði á Masters-mótinu, lék á parinu á Memorial og er í 2. sæti listans. Norður-Írinn Rory McIlroy er í þriðja sæti og Patrick Cantlay í fjórða sæti. 

Viktor Hovland er 25 ára gamall en hefur fjórum sinnum fagnað sigri á mótum á PGA-mótaröðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert