Ég var í stuði og liðið lék vel

Teitur Örn Einarsson var markahæstur á HM.
Teitur Örn Einarsson var markahæstur á HM. Ljósmynd/IHF

„Það var stressandi að vera markahæstur og vita að hinir ættu tvo leiki eftir. Maður vonaði bara það besta og þetta hafðist,“ segir Teitur Örn Einarsson, skyttan frá Selfossi sem varð markahæst á heimsmeistaramóti 19 ára og yngri í handbolta í Georgíu.

Ísland endaði í 10. sæti mótsins, eftir að hafa unnið alla sína leiki í riðlakeppninni en tapað fyrir Svíþjóð í 16 liða úrslitum. Teitur skoraði að meðaltali 9,5 mörk í leik, alls 66 mörk í sjö leikjum. Næstur á eftir honum varð Frakkinn Killian Villeminot með 60 mörk, en hann lék níu leiki á mótinu.

„Þetta kom mér ekkert mikið á óvart. Ég var líka á meðal markahæstu manna í fyrra [á EM U18-landsliða] og núna er ég alveg heill í líkamanum, mikið ferskari en í fyrra, og liðið spilaði hrikalega vel á þessu móti,“ segir Teitur en tekur þó undir að það að skora 9,5 mörk að meðaltali í leik á heimsmeistaramóti sé ansi mikið:

„Auðvitað er það kannski ekki ákveðið fyrir fram, en maður kemur á mótið til að gera sitt besta og hjálpa liðinu eins og maður getur. Ég var í stuði, og strákarnir að spila upp á mig, þannig að þetta gekk allt upp hjá mér að þessu sinni,“ segir Teitur.

Viðtalið í heild sinni er í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.