Vítakeppnin fræga verður á sunnudaginn

Einar Rafn Eiðsson í baráttu við leikmann St. Pétursborgar í …
Einar Rafn Eiðsson í baráttu við leikmann St. Pétursborgar í Kaplakrika í síðasta mánuði. Einar Rafn verður örugglega ein af vítaskyttum FH-liðsins á sunnudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH-ingar halda til St. Pétursborgar í Rússlandi á föstudaginn og etja kappi við St. Pétursborg í vítakeppninni frægu sem sker úr um það hvort liðið mætir Tatran Presov frá Slóvakíu í 3. umferð EHF-keppninnar í handknattleik.

Rússarnir sendu inn kæru eftir síðari leik liðanna í St. Pétursborg í síðasta mánuði en eftirlitsmanni EHF urðu þá á mistök. Þar sem úrslitin urðu þau sömu og í fyrri leiknum í Kaplakrika hefði átt að fara í vítakeppni en leikurinn var framlengdur.

St. Pétursborg vann kærumálið og dómstóll EHF úrskurðaði að liðin þyrftu að eigast við í vítakeppni. Áfrýjun FH-inga skilaði ekki árangri og í annað sinn á skömmum tíma eru þeir að búa sig undir ferðalag til Rússlands.

Eins og áður segir fara FH-ingar áleiðis til Rússlands á föstudaginn. Vítakeppnin fer fram klukkan 9 að íslenskum tíma sunnudaginn og strax að henni lokinni halda FH-ingar heim á leið. Leik liðsins gegn ÍBV sem fram á að fara í Eyjum á mánudaginn verður þar með frestað.

mbl.is