Var magnað sigurmark Ólafs ólöglegt?

Ólafur Andrés Guðmundsson.
Ólafur Andrés Guðmundsson. AFP

Ólafur Guðmundsson skoraði ótrúlegt sigurmark fyrir Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöldi eins og mbl.is hefur ítarlega greint frá.

Kristianstad mætti Malmö og var lokamínútan spennuþrungin. Malmö stal boltanum og jafnaði metin í 29:29 þegar sex sekúndur voru eftir. Þegar leiktíminn var runninn út fékk Kristianstad aukakast og úr því skoraði Ólafur með glæsilegu skoti sem tryggði sigurinn, 30:29.

Ef myndskeiðið af lokakafla leiksins er skoðað má hins vegar velta því fyrir sér hvort Kristianstad hefði átt að endurtaka miðjuna eftir að Malmö jafnaði. Þar sést að vinstri hornamaður Kristianstad er kominn langt inn á vallarhelming Malmö þegar miðjan er tekin, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Ekkert var hins vegar dæmt, Kristianstad fékk aukakastið sem Ólafur skoraði úr og markið stendur.

mbl.is