Fram keyrði yfir Stjörnuna

Ragnheiður Júlíusdóttir sækir að vörn Stjjörnunnar í kvöld.
Ragnheiður Júlíusdóttir sækir að vörn Stjjörnunnar í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fram vann sannfærandi 37:26-sigur á Stjörnunni á útivelli í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. Liðin mættust í bikarúrslitum og lokaúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð, en nú er Fram einfaldlega mikið betra lið en Stjarnan.

Jafnræði var með liðunum á allra fyrstu mínútunum en Fram náði fínum kafla eftir um tíu mínútna leik og komst í 9:4. Þá tók Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, leikhlé og við það hresstist Stjarnan. Þrjú mörk í röð minnkuðu muninn í 9:7 og skömmu síðar var hún orðin 11:10.

Þá kom landsliðsfyrirliðinn Karen Knútsdóttir inn á, en hún hefur verið meidd nánast allt tímabilið. Það voru helst gæðin hennar sem gerðu það að verkum að Fram fór aftur á flug og var staðan 21:15 í hálfleik. Dröfn Haraldsdóttir, markmaður Stjörnunnar, varði aðeins eitt skot allan hálfleikinn.

Seinni hálfleikur byrjaði nákvæmlega eins og sá fyrri endaði. Fram hreinlega raðaði inn mörkunum og voru varnarleikur og markmenn Stjörnunnar lítil fyrirstaða. Þegar seinni hálfleikurinn var hálfnaður var munurinn orðinn tíu mörk, 30:20.

Skömmu fyrir leikslok fékk Guðrún Ósk Maríasdóttir, markmaður Fram, beint rautt spjald fyrir ljótt brot á Stefaníu Theodórsdóttur. Það breytti hins vegar litlu fyrir Fram og öruggur sigur leit dagsins ljós. Ragnheiður Júlíusdóttir átti stórleik hjá Fram og skoraði 12 mörk og lagði auk þess upp nokkur mörk. 

Stjarnan 26:37 Fram opna loka
60. mín. Leik lokið Sannfærandi sigur hjá Fram. Andlaust hjá Stjörnunni.
mbl.is