Ekki misst svefn yfir þessum heimavelli

Snorri Steinn Guðjónsson og hans menn í Val enduðu í …
Snorri Steinn Guðjónsson og hans menn í Val enduðu í 4. sæti deildarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Snorri Steinn Guðjónsson, spilandi þjálfari Vals, var að vonum ánægður eftir að liðið tryggði sér 4. sætið í Olísdeild karla í handknattleik eftir 29:22-sigur á Haukum í lokaumferðinni á Ásvöllum í kvöld.

„Mér fannst við þurfa að hafa fyrir þessu. Auðvitað spiluðu Haukar ekki sinn besta leik og við áttum sjálfir kafla í seinni hálfleik sem ég var ekki ánægður með. Ég er þó ánægður með sigurinn og að ná fjórða sætinu.“

Leikurinn var nokkuð jafn framan af en Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka, var þá í aðalhlutverki. Valsarar náðu þó að slíta sig frá Haukum að lokum og unnu öruggan sjö marka sigur.

„Það er ekkert óvænt að Bjöggi verji vel, hann er besti markmaður deildarinnar og okkar Íslendinga. En við vorum svolítið hægir og það vantaði meira tempó í okkar spil almennt. Þegar við löguðum það, þá fór þetta að detta.“

Leikurinn í kvöld var hreinn úrslitaleikur liðanna um 4. sætið en þau munu mætast í úrslitakeppninni eftir páska. Með sigrinum tryggja Valsarar sér heimavallarréttinn ef grípa þarf til oddaleiks og vonar Snorri að það muni hjálpa Völsurum.

„Ég vona það. Ég vildi bara enda í 4. sæti, það er betra en 5. sætið. Mér líður best í Valsheimilinu og ég held að strákunum líði eins en þetta hefur engin úrslitaáhrif. Það er ekki eins og þetta séu einhver löng ferðalög og annað slíkt á Íslandi. En vonandi mynda Valsmenn smá stemningu og fjölmenna á leikina.“

Valsarar unnu 10 af 11 útileikjum sínum í deildinni í vetur en aðeins fimm sinnum heima. Snorri hefur þó engar teljandi áhyggjur af því gengi en viðurkennir að liðið verði að gera betur í úrslitakeppninni.

„Ef við ætlum að komast áfram, en ég hef ekki verið að missa svefn yfir þessum heimavelli. Auðvitað er ég ekki ánægður með þessa töpuðu leiki þar en við unnum seinasta leik og þurfum að vinna þar áfram ef við ætlum langt í þessari keppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert