KA sigri frá úrvalsdeildarsæti

Jón Heiðar Sigurðsson og félagar í KA fögnuðu sigri í …
Jón Heiðar Sigurðsson og félagar í KA fögnuðu sigri í Digranesi í kvöld. Hér sækir hann að vörn HK-inga. mbl.is/Árni Sæberg

KA er einum sigri frá því að tryggja sér sæti í úrvalsdeild karla í handbolta eftir fimm marka sigur á HK í Digranesi í kvöld, 25:20. KA er þar með 2:0 yfir í einvíginu.

HK skoraði fyrstu tvö mörk leiksins en KA náði svo fljótlega frumkvæðinu og var yfir að loknum fyrri hálfleik, 11:10.

KA-menn skoruðu svo fyrstu fimm mörk seinni hálfleiks og HK náði ekki að brjóta ísinn fyrr en sjö og hálf mínúta var liðin af honum, með marki úr víti. Þessu góða forskoti glutruðu gestirnir ekki niður en HK náði mest að minnka muninn í þrjú mörk. Lokatölur urðu eins og fyrr segir 25:20, KA í vil.

KA vann fyrsta leik liðanna 24:20 á Akureyri á laugardaginn. Liðin mætast í KA-heimilinu á fimmtudagskvöld kl. 19 þar sem HK-ingar verða hreinlega að vinna ætli þeir að eiga möguleika á að komast upp í úrvalsdeild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert