„Ekki auðvelt verkefni“

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Ljósmynd/Gordan Lausic

Aron Pálmarsson segist vera kominn með ágæta mynd af andstæðingum Íslands í dag, Litháum, eftir undirbúning íslenska landsliðsins síðustu daga. 

„Já ég átta mig ágætlega á því núna hvernig lið þetta er eftir að hafa horft á þá síðustu daga. Við höfum verið duglegir að fara yfir videó og við erum með okkar leikáætlun tilbúna. Ég sé alveg hvernig Litháar stilla upp sínu liði,“ sagði Aron þegar mbl.is spjallaði við hann um leikinn í Vilnius í dag. 

Litháar eiga leikmann í liði Montpellier sem sigraði í Meistaradeild Evrópu á dögunum, Jonas Truchanovicius, en Aron hefur mætt nokkrum úr landsliði Litháen á vellinum. „Ég hef spilað á móti nokkrum en ekki mörgum. Ég kannast alveg við leikmenn hjá Litháum og þeir eru með flotta leikmenn inni á milli. Þeir geta stillt upp í gott byrjunarlið og þetta lið hefur verið nokkuð lengi saman. Þeir eru því vel samæfðir og eru sérstaklega hættulegir á heimavelli.“

Í síðustu undankeppni hafði Litháen betur gegn Noregi á heimavelli og tapaði með minnsta mun fyrir Frökkum á heimavelli.

„Það gefur augaleið að þetta er ekki auðvelt verkefni enda eru Noregur og Frakkland á meðal fimm bestu liða í Evrópu. Við erum fullkomlega meðvitaðir um það.“

Fengu góðan tíma

Íslenska landsliðið fékk góðan tíma til að undirbúa sig fyrir umspilsleikina tvo gegn Litháum enda sæti í lokakeppni HM í húfi. 

„Ég var sjálfur kominn snemma heim ásamt fleirum og restin af hópnum kom heim á mánudaginn. Ég var mjög ánægður með undirbúninginn. Æfingarnar voru góðar og það er alltaf gott að hafa góðan tíma til að fara yfir hlutina. Þá síast áhersluatriðin inn í hausinn á manni smám saman og skila sér í undirmeðvitundina. Það er þægilegt en auk þess að skoða Litháana þá erum við einnig að pæla í okkar leik. Ef við náum að spila mjög vel þá eigum við að geta klára dæmið,“ sagði Aron ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert